Eldra ár 4. flokks karla (97) mætti FH á útivelli í dag. Strákarnir voru aldrei líkir sjálfum sér í leiknum og töpuðu 26-24 fyrir Hafnfirðingum.
Á upphafsmínútunum var mikið um mistök á báða bóga og var þá góður möguleiki fyrir annað liðið að ná góðu forskoti. Jafnræði var þó allan hálfleikinn. Selfoss var yfir framan af en seinustu 10 mínútur fyrri hálfleiks voru FH-ingar sterkari og tveimur mörkum yfir í hálfleik.
Í seinni hálfleiknum var töluvert jafnræði en FH alltaf skrefi á undan. Selfoss náði að jafna nokkrum sinnum en aldrei að snúa leiknum sér í vil þrátt fyrir möguleika til þess. Á seinustu 15 mínútum leiksins voru Selfyssingar þrívegis einum leikmanni fleiri en á þessum 6 mínútna kafla skoruðu þeir ekki mark. Selfyssingar fengu því í raun nákvæmlega það sem þeir áttu skilið úr leiknum. Niðurstaðan: 26-24 tap.
Selfoss liðið sem lék þennan leik var ekki það sama og það sem hefur unnið fyrstu fimm leikina í deildinni. Öll séreinkenni þessa hóps virtust týnd og tröllum gefin. Leikgleðin var ekki sjáanleg, baráttan ekki til staðar, einbeitingu vantaði og í raun vantaði hreinlega vilja til þess að vinna leikinn. Er það ansi leitt.