1.deildin staðan
Selfoss tapaði fyrir fyrir Aftureldingu í kvöld 20-24 og er Afturelding því áfram með fullt hús stiga í efsta sæti í deildarinnar. Leikurinn var mjög jafn og spennandi í fyrri hálfleik og stóðu Selfyssingar sig með prýði, vörnin var fín og Basti tók nokkur vel varin skot. Á tuttugustu mínútu fyrri hálfleiks var staðan 8-8 og Selfoss komst yfir í 8-9 en hálfleikstölur urðu 10–12 Aftureldingu í vil. Í seinni hálfleik komu okkar menn ekki einbeittir til leiks. Afturelding nýtti sér það og skoruðu níu mörk á meðan Selfyssingar náðu aðeins að skora tvö mörk og staðan var því orðin 12-21. Selfyssingar koma sér aftur inn í leikinn og náðu að minnka muninn en það var of seint enda erfitt að vinna upp svo mikinn mun á móti sterku liði. Fjögurra marka tap því staðreynd, 20-24.
Gaman var að sjá Atla Kristinsson aftur á vellinum. Hann spilaði sinn fyrsta leik í rúmt ár en hann sleit krossband í fyrrahaust og hefur verið að jafna sig af þeim meiðslum. Vonandi fáum við að sjá meira af honum í vetur. Á vef Sunnlenska.is má lesa viðtal við Atla eftir leikinn.
Í liði Selfoss var Atli Kristinsson markahæstur með 5 mörk, Hörður Másson var með 4 og Einar Sverrisson með 3 mörk. Örn Þrastarson og Sverrir Pálsson voru báðir með 2 mörk og Jóhannes Snær Eiríksson, Jóhann Erlingsson, Ómar Ingi Magnússon og Andri Már Sveinsson voru með eitt mark hver.
Markahæstur í liði gestanna var Örn Ingi Bjarkarson með 6 mörk, Böðvar Páll Ásgeirsson var með 5 mörk og Ágúst Birgisson 4.
Sebastian stóð sig vel í marki Selfyssinga eins og svo oft áður og varði 13 bolta. Sverrir Andrésson var með fína innkomu í seinni hálfleik og varði 6 skot.
Selfoss situr áfram í 3. sæti deildarinnar með 15 stig, jafnmörg og Grótta en betra markahlutfall.
Deildin er nú farin í langt jólafrí en Selfyssingar eiga eftir að spila bikarleik fyrir jól á móti Gróttu. Sá leikur er á Seltjarnarnesinu miðvikudaginn 11. desember klukkan 19:30. Það verður án efa hörkuleikur þar sem tvö jöfn lið mætast en síðast þegar liðin mættust endaði það með jafntefli.
Nú reynir ekki bara á leikmenn, heldur líka á stuðningsmenn Selfoss að fjölmenna á Seltjarnarnesið á miðvikudaginn og styðja sitt lið til sigurs enda mikið í húfi að komast áfram í bikar!