Þjálfararáðstefna fyrir alla sem þjálfa íþróttir innan vébanda Sveitarfélagsins Árborgar verður haldin dagana 11.-12. október. Þema ráðstefnunnar er samvinna – liðsheild - árangur.
Markmið ráðstefnunnar eru margþætt en má þar m.a. nefna:
- Efla símenntun þjálfara í Árborg
- Auka þekkingu og kunnáttu þjálfara í sveitarfélaginu
- Opna á samskipti á milli þjálfara í mismunandi íþróttum
- Efla samstarf þjálfara við aðra aðila innan sveitarfélagsins sem starfa með börn og unglinga, svo sem grunnskóla, barnavernd/félagsþjónustu og félagsmiðstöð
- Skýra verkferla til að taka á vandamálum sem upp geta komið í íþróttastarfssemi svo sem eineltismál
Á ráðstefnuna verður boðið þeim nálægt 75 þjálfurum sem er að finna í sveitarfélaginu Árborg og eru yfir 18 ára aldri. Einnig verður í boði fyrir þjálfara úr öðrum sveitarfélögum á Suðurlandi að taka þátt á ráðstefnunni á laugardeginum.
Dagskráin á föstudeginum er eingöngu miðuð að þjálfurum úr Sveitarfélaginu Árborg þar sem skoðaðir verða samstarfsmöguleikar við stofnanir og aðra aðila sem vinna með börnum og unglingum í sveitarfélaginu og hvernig er hægt að vinna markvisst saman með hag unga fólksins að leiðarljósi. Páll Ólafsson frá Barnaverndarstofu mun flytja erindi og að lokum verður farið í öflugt hópefli.
Á laugardeginum er meira farið í þjálfunartengd málefni með erindum frá fjölbreyttum hópi virtra fyrirlesara.
Þeir sem munu flytja erindi eru:
- Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fyrrverandi þjálfari kvennalandsliðsins í knattspyrnu
- Gunnar Páll Jóakimsson, þjálfari Anítu Hinriksdóttur hlaupara
- Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, fyrirliði landsliðsins í handknattleik
- Viðar Halldórsson íþróttafélagsfræðingur
Á laugardeginum er þjálfurum frá öðrum sveitarfélögum á Suðurlandi boðið að taka þátt. Undirbúningshópur ráðstefnunnar skorar á þjálfara og aðra áhugasama að taka þátt í ráðstefnunni. Ráðstefnan verður betur auglýst á næstu dögum. Skráning sendist á netfangið umfs@umfs.is.
Fyrir hönd undirbúningshóps þjálfararáðstefnu Árborgar,
Gunnar E. Sigurbjörnsson
tómstunda- og forvarnarfulltrúi Árborgar