Helgina 11.-12. febrúar fór fram í Laugardalshöllinni aðalhluti Meistaramóts Íslands. HSK/S°elfoss átti þar öfluga fulltrúa sem stóðu sig vel að vanda. Í heildina fékk HSK/Selfoss tvö gull, tvö silfur og eitt brons. Í stigakeppni milli félaga varð HSK/Selfoss í 3. sæti í karlakeppninni og 4. sæti í heildina.
Fjóla Signý Hannesdóttir Selfossi mætti sterk til leiks að vanda. Hún byrjaði á því að verða Íslandsmeistari í hástökki með 1,67m. Þá hljóp hún 60 m hlaupi á 8,13 sek sem er bæting úr 8,28 sek og aðeins einu broti frá HSK-meti Þórhildar Helgu frá Selfossi. Hún komst í úrslit en tók ekki þátt í þeim þar sem hástökkið var á saman tíma. Seinni daginn þá tvíbætti hún HSK-metið í 200 m hlaupi. Í undanrásum hljóp hún á 26,53 sek og jafnaði metið. Hún gerði svo enn betur í úrlistahlaupinu er hún hljóp frábærlega á nýju HSK-meti, 26,13 sek og 3. sætið var staðreynd. Eva Lind Elíasdóttir Þór og Sólveig Helga Guðjónsdóttir Selfossi kepptu einnig í úrslitum í 200 m hlaupi. Þar bætti Eva persónulegan árangur úr 27,24 sek í 26,78 sek. Sólveig var með sinn besta tíma á tímabilinu 27,38 sek. Síðar um daginn hljóp Fjóla Signý svo til úrslita í 60 m grindahlaupi þar sem hún varð önnur, eftir harða keppni um fyrsta sætið, tíminn 9,00 sek sem jafnfrmt er nýtt HSK-met. Gamla metið var 9,02 sek sem hún átti sjálf og setti á MÍ í fimmtarþraut í janúar sl. Eva Lind Þór var einnig í úrslitunum og varð fimmta.
Bjarni Már Ólafsson Vöku mætti sterkur til leiks í þrístökki. Hann stórbætti sig er hann stökk 13,76 m og sigraði eftir mjög jafna keppni við Bjarna Malmquist FH þar sem þurfi að fara í næst lengsta stökk þeirra félaga til að skera úr um úrslit. Besti árangur Bjarna fyrir MÍ var 13,58 m.
Hreinn Heiðar Jóhannsson Laugdælum keppti í fjórum greinum. Stóð árangur hans í hástökkinu upp úr, en þar tók hann silfur með því að vippa sér yfir 1,91 m. Hreinn varð svo í fjórða sæti í langstökki með 6,38 m stökki, aðeins 6 cm frá bronsinu. Hann varð sjötti í 60 m grindahlaupinu ekki langt frá sínu besta. Í kúluvarpinu bætti Hreinn sig um 3 cm með kasti upp á 10,93 m. Þar varð Ólafur Guðmundsson Laugdælum fimmti með 13,29 m sem er lengsta kast hans á tímabilinu. Þá bætti Haraldur Einarsson Vöku sinn besta tíma á árinu í 200 m hlaupi er hann kom í mark á 23,02 sek. Í 60 m hlaupinu varð Halli fimmti á sínum þriðja besta tíma frá upphafi 7,19 sek. Elinborg Anna Jóhannsdóttir Laugdælum komst í úrslit í langstökki með næstlengsta stökki sínu til þessa, 4,77m. Thelma Björk Einarsdóttir Selfossi bætti sig í kúlu (4 kg) varpaði 9,86 m og varð sjötta. Kristín Rut Arnardóttir Selfossi bætti sig í langstökki úr 4,20 m í 4,26 m og í 200 m hlaupi úr 29,29 sek í 28,86 sek.
Næsta verkefni frjálsíþróttafólks HSK/Selfoss er Bikarkeppni FRÍ innahúss sem fram fer laugardaginn 18. febrúar nk. HSK/Selfoss sendir sína sterkustu sveit til leiks, en þar keppir einn í grein frá hverju félagi. Sællar minningar í fyrra þegar HSK varð í 3. sæti, jöfn 2. sætinu að stigum, þá stefnum við á góðan árangur í ár og hvetjum fólk til að mæta í Laugardalshöllina og styðja við bakið á HSK/Selfoss-liðinu.
Ólafur Guðmundsson, verkefnisstjóri HSK í frjálsum.
Efri mynd: Fjóla Signý Hannesdíottir, Íslandsmeistari í hástökki innanhúss 2012.
Neðri mynd: Bjarni Már ólafsson, Íslandsmeistari í þrístökki innanhúss 2012.