Valorie O'Brien ráðin þjálfari Selfoss

Valorie O'Brien
Valorie O'Brien

Gengið hefur verið frá ráðningu Valorie O'Brien sem þjálfari meistaraflokks kvenna Selfoss í knattspyrnu til næstu tveggja ára.

Valorie er fyrrum leikmaður Selfoss en hún lék með liðinu fyrstu tvö sumur liðsins í Pepsi-deildinni með góðum árangri og skoraði m.a. fyrstu mörk Selfoss í efstu deild. Síðan hún lék með Selfoss hefur hún þjálfað í Bandaríkjunum við gott orðspor auk þess sem hún hefur bætt við þjálfaramenntun sína.

Í yfirlýsingu frá Valorie kemur fram að auk þess að fá tækifæri til að þjálfa lið Selfoss sem hún ber mikla virðingu fyrir hlakkar hún til að hitta aftur stuðningsmenn og fólkið á Selfossi sem henni er afar hlýtt til.

Að sögn Gunnars Rafns Borgþórssonar, yfirmanns knattspyrnumála hjá Selfoss er Valorie gríðarlegur karakter sem kemur til með að drífa áfram og efla enn frekar gott starf Selfoss undanfarin ár.

---

Ljósmynd af vef Sunnlenska.is/Guðmundur Karl