Áfram heldur heimasíðan að gera upp fyrstu umferðina í 1. deildinni og einnig að hita upp fyrir næsta heimaleik sem er gegn Gróttu. Núna er það hin stórefnilegi miðjumaður Einar Sverrisson, en hann hefur verið að spila með u-21 landsliðinu og fór til dæmis með þeim til Tyrklands fyrr á árinu. Hann var partur af 2. flokki Selfoss sem varð bikarmeistari í fyrra. Einar hefur sífellt verið að spila stærra og stærra hlutverk í liðinu. Hann er á sínu 3. tímabili með mfl. Hann þreytti frumraun sína árið 2011 í N1 deildinni. Þar spilaði hann þó einungis 2 leiki og skoraði 2 mörk. Í fyrra fékk hann svo tækifærið sitt með mfl., spilaði 14 leiki og skoraði í þeim 20 mörk. Í ár hefur hann svo blómstrað með liðinu, leikið við hvern sinn fingur og er markahæstur í liðinu eftir 7 leiki með 41 mörk. Við eigum vonandi eftir að sjá nóg af drengnum á næstu árum.
Nú er fyrstu umferðinni af þremur lokið, hvar stendur liðið?
Við erum klárlega betri en margir töldu okkur vera, enda vissum við það líka sjálfir fyrir tímabilið að við erum betri nú en í fyrra. Okkur var spáð 4.-5. sætinu minnir mig og finnst mér við vera sýna það að við eigum að vera í toppsætunum, enda viljum við vera þar.
Næsti leikur er gegn Gróttu, hvernig leggst sá leikur í þig?
Hann leggst bara ágætlega í mig. Fyrri leikurinn út á nesi var spennandi og má búast við því sama á föstudaginn. Þeir eiga eftir að koma af krafti í þennan leik, en það á ekki að koma að sök því við munum koma á meiri krafti og hirða stigin tvö sem í boði eru.
Ertu ánægður með spilamennsku liðsins hingað til?
Hún hefur verið fín af og til, vörnin heldur ágætlega, en sóknin er oft á tíðum stirð hjá okkur.
Eitthvað sem hefur komið á óvart í deildinni?
Það er svo sem ekkert sérstakt sem gerir það. Gaman að sjá hvað efstu 4 liðin eru jöfn. Það munar ekki nema tveimur stigum á efsta sætinu og því fjórða sem gerir deildina skemmtilega.
Eitthvað að lokum?
Ég vil sjá sem flesta koma í Vallaskóla á föstudaginn og mæta á hörkuleik sem verður eflaust góð skemmtun.