Nú er fyrsta umferðinn af þremur í 1. deildinni lokið. Af því tilefni hafði heimasíðan samband við hina efnilegu vinstri skyttu Matthías Örn Halldórsson. Hann hefur verið að halda uppi varnarleik Selfossliðsins í vetur og einnig náð að skora 30 mörk. Matthías er á sínu þriðja tímabili með mfl. Selfoss. Hann þreytti frumraun sína í N1 deildinni árið 2011, spilaði 6 leiki og skoraði 9 mörk. Í fyrra lék hann svo stórt hlutverk í liðinu og skoraði 70 mörk í 20 leikjum. Hann var einnig hluti af 2. flokki Selfoss sem varð bikarmeistari í fyrra.
Nú er fyrstu umferðinni af þremur lokið, hvar stendur liðið?
Ég held að við stöndum bara ágætlega. Liðið er fyrir miðri deild sem er mun betra en á sama tími og í fyrra.
Næsti leikur er gegn Gróttu, hvernig leggst sá leikur í þig?
Leikurinn leggst nokkuð vel í mig. Ég veit að liðið er æst í að sýna stuðningsmönnum sínum að leikurinn á föstudaginn var bara slys og að við eigum helling inni. Auk þess er liðið enn þá að bíða eftir að klára fyrsta heimaleikinn með sæmd. Ég treysti á að sá leikur komi á föstudaginn næsta.
Ertu ánægður með spilamennsku liðsins hingað til?
Það er margt gott við spilamennsku liðsins hingað til. Sem dæmi þá er vörnin yfirleitt að halda mjög vel, markmennirnir eru oftast að verja um eða yfir 50% skotanna og markaskorið er nokkuð dreift það sem af er. Hinsvegar er líka hægt að laga margt og má þá helst nefna nýtingu dauðafæra og fjölda tapaðra bolta.
Eitthvað sem hefur komið á óvart í deildinni?
Í rauninni ekki, við vissum að þetta yrði jöfn og spennandi deild þar sem að allir geta unnið alla, og það sem af er þá er það raunin. Öll lið hafa tapað stigum og öll lið eru komin með stig.
Eitthvað að lokum?
Ég vil hvetja sem flesta til að mæta á völlinn því leikurinn verður alltaf miklu skemmtilegri þegar að stúkan er full.