Vilja þjóðarleikvanginn í frjálsum á Selfoss

Selfossvöllur
Selfossvöllur

Sveitarfélagið Árborg vill að frjálsíþróttaleikvangurinn á Selfossi verði gerður að þjóðarleikvangi Íslendinga og mun fara fram á viðræður við Frjálsíþróttasamband Íslands þess efnis. Sunnlenska.is greindi frá þessu í október.

Ljóst er að það yrði mikil lyftistöng fyrir frjálsíþróttir á Selfossi sem og Suðurlandi öllu og fagnar Ungmennafélagið hugmyndum sveitarfélagsins.

Hugmyndin var rædd á síðasta fundi íþrótta- og menningarnefndar Árborgar sem lagði hugmyndina til við bæjarstjórn. Á síðasta fundi bæjarráðs var svo samþykkt að fela Ástu Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra Árborgar, að rita Frjálsíþróttasambandi Íslands bréf og viðra þessa hugmynd.

„Við eigum ekki langt í land með okkar aðstöðu og þurfum ekki að bæta miklu við til þess að geta kallað okkur þjóðarleikvang,“ sagði Kjartan Björnsson, formaður íþrótta- og menningarnefndar Árborgar, í samtali við sunnlenska.is. „Við þyrftum að bæta áhorfendaaðstöðuna og bæta við hlaupabrautum í styttri vegalengdum en að öðru leyti er öll aðstaða hjá okkur góð,“ segir Kjartan en þjóðarleikvangur þarf að uppfylla ýmsar alþjóðlegar kröfur.

Laugardalsvöllurinn í Reykjavík er þjóðarleikvangur Íslendinga, bæði í knattspyrnu og frjálsum íþróttum og hafa verið árekstrar á milli sérsambandanna á vellinum. Forráðamenn Knattspyrnusambands Íslands og Frjálsíþróttasambands Íslands hafa lýst því yfir að sambúðin á Laugardalsvellinum sé ekki sé hentug fyrir þessar íþróttir.

„Málefni Laugardalsvallarins hafa verið til umræðu í Reykjavík í nokkra mánuði án þess að nokkuð gerist. Við setjum þessa hugmynd því fram til þess að leysa Reykjavíkurborg úr snörunni og bjóðum fram okkar frábæra völl hér á Selfossi,“ sagði Kjartan að lokum.